Fréttir

Vesturlandsslagur í körfunni í kvöld – Spennan að magnast upp

Það verður væntanlega hart tekist á í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi í kvöld þegar lið ÍA og Skallagríms mætast í 1. deild karla í körfuknattleik. Skagamenn hafa farið hamförum að undanförnu og unnið sex leiki í röð í deildinni og hafa eflaust hug á að bæta þeim sjöunda við gegn sínum erkifjendum. Skallarnir hafa hins vegar þurft að þola mikið mótlæti síðustu vikur og mánuði og hafa tapað sjö leikjum í röð sem er líklegast félagsmet.

Í fyrri leik liðanna sem fram fór í Borgarnesi í lok október unnu gestirnir öruggan 20 stiga sigur, 69:89, og síðasti sigurleikur Skallagríms kom á móti grönnum þeirra í Snæfelli um miðjan nóvember, lokatölur 94:86. Það er því ljóst að það verður mikið undir í leiknum og líklega verður fullt hús í þessum nágrannaslag.

Fyrir leik mun ÍA í samstarfi við söluvagninn Kung Fu vera með tilboð á kjúklingavængjum í keilusalnum við Vesturgötu frá klukkan 17-20. Miðasala verður við inngang og á Stubb appinu, miðaverð er kr. 2000 og frítt fyrir yngri en 16 ára. Leikurinn hefst á slaginu 19.15 og því um að gera að koma tímanlega til að missa ekki af þessum rosalega Vesturlandsslag. Góða skemmtun!!!

Vesturlandsslagur í körfunni í kvöld – Spennan að magnast upp - Skessuhorn