
Snjóflóð þverar veginn undir Ólafsvíkurenni
Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns hefur snjóflóð fallið yfir veginn undir Ólafsvíkurenni á Snæfellsnesi og lokar honum. Vegurinn er auglýstur lokaður af Vegagerðinni á umferdin.is vegna hvassviðris og á það reyndar einnig við um allar stofnbrautir á norðanverðu Snæfellsnesi. Maður sem var þarna á ferð nú fyrir skömmu sá flóðið og lét vita en það hefur að líkindum fallið nú undir kvöld.
Óvissustig vegna ofanflóðahættu tók gildi á sunnanverðum Vestfjörðum síðdegis í dag. Á sunnanverðum Austfjörðum tekur óvissustig gildi klukkan 20. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að búast megi við leysingum um allt land. Vot snjóflóð geta fallið vegna þessa, eins og það sem féll úr Ólafsvíkurenni. Vegna óvissustigs á Vestjörðum er varðskip nú á siglingu þangað og er statt út af Snæfellsnesi.