Fréttir

Mjög slæmt veður á Snæfellsnesi

Nú er gengið í suðaustan hvassviðri og hláku um land allt. Verst er veðrið að líkindum á norðanverðu Snæfellsnesi eins og jafnan í þessari vindátt þar sem vindur stendur af háum fjöllum. Appelsínugul viðvörun hefur tekið gildi við Breiðafjörð og er til hádegis á morgun, laugardag. Á vindmælinum á Fróðárheiði er nú 30 metra á sek. standvindur en 40 m/sek í hviðum og er vegurinn lokaður. Raunar eru allir vegir á norðanverðu Snæfellsnesi nú lokaðir vegna veðurs. Meðfylgjandi myndir tók Alfons Finnsson fréttaritari Skessuhorns í Snæfellsbæ nú rétt í þessu. Götur í Ólafsvík eru umflotnar vatni enda mikill snjór sem er að bráðna. Bálhvasst er einnig í höfninni. Stórstreymt er klukkan 20:30 í kvöld og er nú lögð áhersla á að hreinsa frá öllum niðurföllum að sögn Alfons.

Mjög slæmt veður á Snæfellsnesi - Skessuhorn