
Mælir með listakosningum í stærri sveitarfélögum
Kosið verður til sveitastjórna hér á landi 16. maí á næsta ári. Í smærri sveitarfélögum er mismunandi hvort fram fari listakosningar eða að persónukjör sé viðhaft. Það síðar nefnda á reyndar einungis við ef ekki berst framboðslisti, einn eða fleiri, í tæka tíð. „Það skiptir máli hvernig staðið er að framboði og hvernig það er undirbúið,“ skrifar Áskell Þórisson íbúi í Hvalfjarðarsveit í aðsendri grein í Skessuhorni. „Þegar ég kom fyrst í Hvalfjarðarsveit öttu tvö framboð eða flokkar kappi um hylli kjósenda. Síðan dofnaði áhuginn á sveitarstjórnarpólitíkinni og í kosningunum 2022 var svokallað persónukjör. Mér fannst í byrjun að persónukjör gæti verið heppileg leið en er nú kominn á aðra skoðun,“ skrifar Áskell sem hvetur íbúa til að tryggja að tveir eða fleiri framboðslistar verði í kjöri í sveitarfélaginu næsta vor. Fólk fari tímanlega að undirbúa slíkt. Þess má geta að íbúar í Hvalfjarðarsveit rufu nýverið 800 manna múrinn.