Fréttir

Víða hefur talsvert snjóað síðustu daga

Undanfarna daga hefur talsverður snjór fallið í landshlutanum. Í Snæfellsbæ hefur kyngt niður og því mikið verið að gera hjá þeim sem sjá um snjómokstur bæði fyrir bæjarfélagið og Vegagerðina. Svanur Tómasson hjá TS vélaleigu segir í samtali við Skessuhorn að hann sé ekki með öll sín tæki í notkun en mikið hefur verið um snjóruðning fyrir Vegagerðina. „Við höfum svo sem séð mikið meiri snjó en þetta, en þetta er engu að síður talsvert,“ segir Svanur sem hefur áratuga reynslu að snjómokstri. Á myndinni, sem Alfons Finnsson tók, er Svanur að ryðja snjó við Ólafsbrautina í Ólafsvík snemma sl. þriðjudagsmorgun.

Víða hefur talsvert snjóað síðustu daga - Skessuhorn