
Áætlað að nýja íþróttahúsið á Jaðarsbökkum verði opnað í haust
Í lok árs 2021 hófust framkvæmdir við nýtt íþróttahús á Jaðarsbökkum á Akranesi og er stærsta framkvæmd Akraneskaupstaðar um árabil. Um er að ræða fjölnota íþróttahús og er það einn áfangi af mörgum í áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu. Húsið samanstendur af fjölnota íþróttasal og hliðarbyggingu á tveimur hæðum fyrir ýmis fylgirými. Íþróttasalurinn er 50 metrar að lengd og 38,5 metrar á breidd að innanmáli, alls 1.925 fermetrar. Til samanburðar er salurinn í gamla íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum 46 metrar að lengd og 20 metrar á breiddina, eða 920 fermetrar. Í kjallara eru búningsherbergi fyrir íþróttasalinn, Akraneshöllina, Akranesvöll, æfingasvæðið og önnur útisvæði. Fjórar loftræstisamstæður eru í húsinu, útgangar eru um 20, með flóttaleiðum, og fjórtán salerni fyrir áhorfendur.