
Suðaustan snjókoma og hvassviðri um tíma á morgun
Á morgun er því spáð að gangi í suðaustan 15-23 m/s í fyrramálið með snjókomu eða slyddu og skafrenningi til heiða, en rigningu við sjávarsíðuna. Gul viðvörun er vegna veðurs um allt vestan- og sunnanvert landið. Við Breiðafjörð og Faxaflóa gildir veðurviðvörun frá því fyrir hádegi og til klukkan 18 og bent á að um tíma verði varasamt ferðaveður. Hægara og úrkomuminna verður um landið norðaustanvert. Hlýnar svo í veðri og verður hiti 0 til 5 stig síðdegis. Snýst í mun hægari vestanátt með stöku éljum vestantil annað kvöld og kólnar í veðri.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir: "Það gengur í hvassa suðaustanátt í nótt og þar sem er lausamjöll, t.d. suðvestantil á landinu, má búast við erfiðum akstursskilyrðum í skafrenningi í fyrramálið. Það hlýnar með morgun deginum og fer að rigna á láglendi og víða hált á meðan snjó og klaka leysir, en það snjóar til fjalla og versna því akstursskilyrði enn frekar á heiðarvegum. Hægari vestlæg átt og styttir upp annað kvöld, t.d. á Hellisheiði eftir kl 18."