
Svæðið sem um ræðir er vestan Akratorgs. Ljósm. mm
Samþykkja útboðsgögn vegna fjögurra lóða í miðbæ Akraness
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkti á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag útboðsgögn vegna svokallaðs Miðbæjarreitar, en hann nær yfir lóðirnar Suðurgötu 57 sem gamla Landsbankahúsið stendur á, Suðurgötu 47, Suðurgötu 47a (bílastæði á báðum lóðum) og Skólabraut 24. Áður hafði bæjarráð samþykkt aðferðafræði vegna fyrirhugaðs útboðs. Til stendur að bjóða út byggingarrétt á lóðunum. Áður hafði bæjarstjórn samþykkt að bjóða til sölu gamla Landsbankahúsið. Tilboðsgjafar geta í framhaldi þess ákveðið hvort núverandi hús víki eða verði hluti af mannvirkjum á svæðinu.