
Starf sjálfboðaliðans er nýr áfangi við FVA
„Þessi fyrsta kennslustund gekk mjög vel og það var mjög gaman að hitta nemendurna,“ segir Álfheiður Sverrisdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vesturlandi. Hún og Heiðar Mar Björnsson, samstarfsfélagi hennar, hófu í síðustu viku kennslu í áfanga um störf sjálfboðaliða við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Fram kemur í tilkynningu frá UMFÍ að þetta nám sé nýjung í skólastarfi. Áfanginn er til tveggja eininga og er bæði um bóklegt og verklegt nám að ræða. Svæðisfulltrúar ÍSÍ og UMFÍ eru hugmyndasmiðirnir að þessu fyrirkomulagi og mótuðu þau Álfheiður og Heiðar námið í samstarfi við Íþróttabandalag Akraness og FVA. ÍA fékk styrk fyrir verkefninu úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ í seinni úthlutun úr sjóðnum á síðasta ári. Í skoðun er að bjóða upp á sambærilega áfanga í fleiri skólum.