
Verkefnið Saman á Skaga ófjármagnað á þessu ári
Á fundi velferðar- og mannréttindaráðs Akraneskaupstaðar síðasta þriðjudag kom fram að virkniverkefnið Saman á Skaga hefur undanfarin ár verið starfrækt með fjármagni frá ríkinu fyrst um sinn og síðan Akraneskaupstað og verið unnið gegn verktakagreiðslum af nokkrum aðilum. Bókað var í velferðar- og mannréttindaráði árið 2023 að gera þyrfti ráð fyrir fjármagni fyrir verkefnið á árinu 2024 í fjárhagsáætlun. Að sama skapi var óformlega rætt um að næstu ár yrðu með svipuðum hætti. Fram kemur í fundargerð nú að í aðdraganda fjárhagsáætlunar 2025 var gert ráð fyrir fjármagni til að halda verkefninu áfram og beiðni þess efnis sett inn í fjárhagsáætlunargerð. Sú hækkun skilaði sér hins vegar ekki. Velferðar- og mannréttindaráð staðfesti að ekki fékkst fjármagn í verkefnið í fjárhagsáætlunargerð fyrir 2025. Ráðið lagði því áherslu á að frístundastarfi fatlaðs fólks verði fundinn viðeigandi vettvangur innan bæjarfélagsins.