Fréttir
Kýrin Klauf 2487 í Lambhaga á Rangárvöllum var afurðahæst íslenskra kúa á síðasta ári. Ljósm. RML/ Hafdís Laufey Ómarsdóttir

Kúabúum fækkar, þau stækka og afurðir aukast

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins birti í dag á heimasíðu sinni helstu niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar árið 2024. Á nýliðnu ári voru 470 bændur sem skiluðu skýrsluhaldi, fækkaði um 19 frá árinu á undan. Niðurstöðurnar eru þær helstar að ríflega 25 þúsund árskýr í landinu skiluðu að meðaltali 6.523 kílóa nyt. Það er afurðaaukning um 112 kg á hverja árskú frá árinu 2023. Þetta eru mestu meðalafurðir frá upphafi vega og níunda árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Meðalbústærð í landinu reiknaðist 56,1 árskýr árið 2024 en sambærileg tala var 54,1 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 72,6 kýr en 2023 voru þær 69,6. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.160 talsins samanborið við 34.151 árið áður. Búum er því að fækka, þau stækka og hvert um sig að auka við afurðir að meðaltali.

Kúabúum fækkar, þau stækka og afurðir aukast - Skessuhorn