Fréttir
Skemmtiferðaskip við kajann í Grundarfirði. Ljósm. úr safni/tfk

Farþegar skemmtiferðaskipa hafa víða verulega þýðingu fyrir atvinnulífið

Á ráðstefnu sem Samtök um söguferðaþjónustu héldu í samstarfi við Íslandsstofu síðastliðinn föstudag voru fjölmörg áhugaverð erindi flutt. Meðal frummælenda var Sigurður Jökull Ólafsson, formaður Cruise Iceland og markaðsstjóri Faxaflóahafna. Í erindi sínu reifaði Sigurður Jökull efnahagslegt mikilvægi skemmtiferðaskipa sem voru áætlaðir 37,2 milljarðar á árinu 2023 í skýrslu Reykjavik Economics. Ferðamenn skemmtiferðaskipa eru sérstaklega mikilvægir viðskiptavinir safna en líka fjölda annarra fyrirtækja. Í spurningakönnun til farþega sem Sigurður Jökull vitnaði til kom fram að 50% farþega fór í rútuferðir út fyrir bæ, um 30% keyptu sér mat úr héraði, tæp 20% fóru á söfn og 20% í baðlón eða heilsulind. Þá er ótalin önnur afþreying eins og útsýnisflug, göngur með leiðsögn, bílaleiga, reiðtúrar, kajak ferðir eða flúðasiglingar, hvalaskoðun, köfun, hjólreiðatúrar eða sund. „Ljóst má vera að ferðamaðurinn getur ekki gert allt alls staðar en virkni þeirra er hins vegar mjög mikil miðað við niðurstöður könnunarinnar,“ sagði Sigurður Jökull.

Farþegar skemmtiferðaskipa hafa víða verulega þýðingu fyrir atvinnulífið - Skessuhorn