Fréttir
F.v. Svartafjall, Snjófjall eða Litla-Skyrtunna, Skyrtunna og Hestur, allt fjallstoppar í Ljósufellakerfinu. Myndin er tekin frá afleggjaranum að Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal. Ljósm. só

Almannavarnanefnd fundaði með sérfræðingum um náttúruvá

Síðastliðinn þriðjudag fundaði almannavarnanefnd Vesturlands, ásamt fulltrúum Lögreglustjóraembættisins á Vesturlandi, með sérfræðingum frá Veðurstofu Íslands og Almannavörnum. Tilefni fundarins var aukin jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Mýrum sem er innan eldstöðvarkerfis Ljósufjalla, sem nær allt frá Snæfellsnesi og í Borgarfjörðu. Að sögn Björns Bjarka Þorsteinssonar formanns almannavarnanefndar Vesturlandi fengu fulltrúar í nefndinni góða kynningu á stöðu mála og viðbrögð við þeim vangaveltum sem á fulltrúum landshlutans brunnu.

Fram hefur komið að greiningar á gervitunglagögnum frá tímabilinu 2019 til sumarsins 2024 sýna ekki mælanlega aflögun á yfirborði en engu að síður í ljósi aukinnar virkni og vísbendinga um kviku innskot á talsverðu dýpi hefur Veðurstofan hækkað vöktunarstig sitt í umhverfi Ljósufjalla. „Almannavarnanefnd mun nú í kjölfar fundarins fara yfir málin með fulltrúm almannavarna og uppfæra viðbragðsáætlanir sínar þó svo að ekki sé talin hætta á ferðum a.m.k. að svo stöddu,“ segir Björn Bjarki. Stefnt er að því að halda upplýsingafund með aðkomu náttúruvársérfræðinga og almannavarna um miðjan febrúar.

Almannavarnanefnd fundaði með sérfræðingum um náttúruvá - Skessuhorn