
Afar vel heppnað 80´s kvöld í Bíóhöllinni
Það var mikil eftirvænting hjá fjölmörgum áhorfendum sem voru mættir á 80´s kvöld í Bíóhöllinni á Akranesi síðasta föstudagskvöld. Enda vissu þeir kannski ekki alveg hverju þeir áttu von á en um var að ræða svokallan Lip Sync viðburð sem ekki hefur verið haldinn áður, að minnsta kosti ekki hér á Skaganum og jafnvel ekki víðar hér á landi. Þá var gaman að sjá hvað margir mættu í 80´s fatnaði sem lífgaði verulega upp á kvöldið og líka bara upp á stemninguna að gera.
Gestgjafi kvöldsins, Valdi Kriss, steig fyrstur á svið og flutti lagið A Man Is in Love sem endaði á því að dansarar stigu villtan „Riverdance.“ Næst tóku þeir félagar og kynnar kvöldsins, Valdi og Ásgeir Eyþórs, KISS slagarann I Was Made For Lovin´ You og gestir sungu hástöfum með enda voru textar laganna sýndir á risa skjá við sviðið. Valdi tryllti næst lýðinn með hinu dansvæna Can´t Take My Eyes Off You með aðstoð frá dönsurunum Rögnu Dís, Agnesi Rós, Rakel Sunnu, Sölku og Sóleyju. Í miðju lagi smellti síðan nánast allur salurinn sér í kongadans með miklum tilþrifum og allt að verða vitlaust. Eftir þetta voru mættar á sviðið þær Villa, Krissa, Magga, Sylvía og Haley frá leikskólanum Vallarseli sem dönsuðu og sungu við lögin Daddy Cool með Boney M, I Love Rock´N´Roll með Joan Jett og þær enduðu á Loverboy smellinum Working for the Weekend frá 1981. Mjög vel gert hjá þeim stöllum og gestirnir vel með á nótunum. Valdi og Ásgeir tóku síðan síðasta lagið fyrir hlé sem var með skosku tvíburunum úr Proclaimers og vel var sungið með í viðlaginu við I´m Gonna Be (500 Miles).
Fyrsta atriðið eftir hlé var í boði hópsins Team Tinna sem í voru þær Martha Lind, Andrea Ýr, Sunna Dís og Helga Sjöfn. Þær fóru algjörlega á kostum, fyrst í Total Eclipse of the Heart þar sem vindvél var óspart notuð í atriðinu, svo var það Journey lagið Don´t Stop Believin´ og þær komnar í nýja búninga og þær luku leik með laginu It´s Raining Men þar sem þær voru mættar með regnhlífar til að verjast ágangi karlmanna. Mikil litagleði og mikið hugmyndaflug einkenndi þeirra flutning og áhorfendur alveg að missa sig. Síðasta atriðið var úr FVA með leiklistarklúbbnum Melló sem byrjaði á gleymdri perlu með hljómsveitinni Cheetah sem nefnist Spend the Night, síðan misstu áhorfendur fæturna næstum í gólfið þegar lagið Footloose úr samnefndri kvikmynd frá 1984 var flutt og svo var komið að lokalaginu, úff! Það var hið næstum níu mínútna lag Meat Loaf, Paradise By the Dashboard Light, og þá fór þakið næstum af húsinu enda lag sem flestir þekkja en fram kom í kynningu að krakkarnir úr FVA höfðu aldrei heyrt lagið áður þegar þau voru beðin um að flytja það í undirbúningi kvöldsins.
Kvöldinu lauk svo með því að allir sem tóku þátt voru kallaðir upp á svið og sungu með salnum Bohemian Rhapsody með Queen sem var góður endir á virkilega vel heppnuðu kvöldi. Hljómburðurinn í Bíóhöllinni var frábær og hún hentar vel fyrir svona viðburð því hægt er að bregða sér til hliðanna til að fá meira pláss fyrir danstaktana ef svo ber undir. Það er bara vonandi að Valdi Kriss og Ásgeir taki slaginn og bjóði upp á annað svona kvöld seinna meir því miðað við viðtökurnar er ekki spurning að þessi viðburður er kominn til að vera.
frg

