
Vitundarátak í kjölfar STEC sýkingar í kjöthakki
Í október á síðasta ári kom upp stór hópsýking á leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Var hún af völdum shigatoxín myndandi E. coli (STEC) í nautgripa- og lambahakki. Í ferli málsins kom í ljós að nauðsynlegt væri að skerpa á þekkingu og meðvitund almennings og matvælaframleiðenda um mikilvægi réttrar meðhöndlunar á kjöti m.t.t. E. coli. Að því tilefni ákváðu Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga (HES) að setja af stað tímabundið átaksverkefni sem snýr að aukinni vitund í samfélaginu og áherslum í eftirliti varðandi E. coli í kjöti. Verkefnið mun ná yfir tvö ár og niðurstöður þess verða birtar í skýrslu á heimasíðu Matvælastofnunar.