
Skagamenn hafa unnið 10 leiki af 13 og eru enn ósigraðir á heimavelli. Ljósm. vaks
Fimmti sigurinn í röð hjá ÍA
ÍA og KFG áttust við í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og var viðureignin í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Heimamenn byrjuðu af krafti og komust í 10:2 í byrjun leiks en síðan náðu gestirnir úr Garðabæ að koma til baka og minnka muninn í tvö stig eftir tæpan þriggja mínútna leik, staðan 15:13. Þá tóku Skagamenn sig til og náðu 22-9 áhlaupi fram að lokum fyrsta leikhluta og þeir komnir með 15 stiga forskot, 37:22. Þeir gulklæddu voru ekkert á því að gefa neitt eftir í öðrum leikhluta, þeir skoruðu átta stig í röð á fyrstu mínútunni og alveg ljóst hvert stefndi. Þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar munaði 20 stigum á liðunum, 55:35, og þegar flautað var til hálfleiks var staðan svipuð, 69:44.