Fréttir

Stóraukin snjóflóðahætta á Austfjörðum

Óvissustig vegna snjóflóðahættu tók gildi á Austfjörðum á hádegi í dag, sunnudaginn 19. janúar. „Spáð er norðaustan hvassviðri með mikilli snjókomu í kvöld og á morgun. Uppsöfnuð ofankoma getur orðið hátt í 300 mm til fjalla og bætist skafrenningur ofan á það. Gera má því ráð fyrir að nokkrir metrar af snjó geti bæst við til fjalla. Hiti verður í kringum frostmark eða rétt yfir frostmarki á láglendi og er ekki búist við þurrum hraðfara flóðum með kröftugum iðfaldsflóðum sem geta ógnað byggð neðan varna. Nokkur snjóflóð féllu á Austfjörðum í gær og athuganir snjóeftirlitsmanna benda til þess að stöðugleiki snjóþekjunnar sem fyrir var sé ekki mikil. Búist er við að snjóflóðahætta aukist talsvert þegar líður á veðrið og hefur verið ákveðið að rýma nokkra reiti á Seyðisfirði og í Neskaupstað, bæði atvinnusvæði og íbúðahús, frá kl. 18. Gert er ráð fyrir að veðrið gangi niður aðfaranótt þriðjudags. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með aðstæðum og verður gripið til frekari rýmingar ef þess þykir þörf,“ segir í tilkynningu.

Stóraukin snjóflóðahætta á Austfjörðum - Skessuhorn