Fréttir
Verið að stilla varmadælurnar í tæknirými hússins. Ljósmyndir: tfk

Orka úr iðrum jarðar nú nýtt til að hita upp íþróttahúsið í Grundarfirði

Það var merkisdagur í gær þegar varmadælur voru ræstar og teknar í notkun í fyrsta skipti í íþróttahúsinu í Grundarfirði. Grunnskólinn og íþróttamannvirkin hafa verið hituð með olíu síðustu áratugi og nú verður breyting þar á. Sumarið 2023 var byrjað að bora eftir hita í jörð við íþróttamannvirkin og voru boraðar tíu varmasöfnunarholur. Níu holur af þessum tíu reyndust nothæfar. Lokað hringrásakerfi til varmasöfnunar var lagt í holurnar og fimm varmadælum stillt upp innanhúss ásamt þremur hitatúpum. Áætlað uppsett afl varmadælanna er 240 kW. Þetta verður mikil bylting en árlega var verið að nota 130 þúsund lítra af olíu til kyndingar og ekki var hægt að hafa sundlaugina opna allt árið þó að pottarnir hafi verið kyntir. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur til með að virka næstu vikur og mánuði og munum við fylgjast vel með því.

Orka úr iðrum jarðar nú nýtt til að hita upp íþróttahúsið í Grundarfirði - Skessuhorn