
Húsfyllir var á styrktartónleikum í Hjálmakletti í gær – Myndasyrpa
Styrktartónleikar til stuðnings Birtu Bjarkar Birgisdóttur og fjölskyldu hennar fóru fram í Hjálmakletti í Borgarnesi í gærkvöldi. Um 500 gestir fylgdust með, tóku undir og dönsuðu þegar tónlistarfólk úr öllum áttum og af ólíkum tónlistarstefnum steig á svið í Hjálmakletti. Allir sem að tónleikunum komu gáfu vinnu sína. Gísli Einarsson kitlaði hláturtaugar á milli atriða en hann var kynnir kvöldsins. Vinir Birtu mættu fyrr um daginn til að skreyta salinn og gera klárt fyrir kvöldið. Vöfflulykt úr eldhúsinu var lokkandi og voru skipuleggjendur viðburðarins hæstánægð með hvernig til tókst. Birta Björk komst því miður ekki sjálf á tónleikana en hún var sett í einangrun í gærdag. Hún fylgdist með tónleikunum í streymi og sá Páll Óskar um að loka kvöldinu með óskalögum Birtu og myndaðist frábær stemning undir lokin.