
Magnúsarvaka verður í félagsheimilinu Brún á laugardaginn
Jakob Frímann, Soffía Björg, Varmalækjarbræður og fleiri listamenn koma fram við aldarminningu Magnúsar frá Hvítárbakka
Fjölþætt Magnúsarvaka verður laugardaginn 18. janúar kl. 21 í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit. Þar munu Jakob Frímann Magnússon, Soffía Björg, Varmalækjarbræður og fleiri listamenn koma fram við aldarminningu Magnúsar Guðmundssonar frá Hvítárbakka. „Fjölþætt skemmtidagskrá verður í boði undir stjórn Jakobs Frímanns og félaga þar sem valinkunnir tónlistarmenn flytja tónlist, upplesarar lesa ljóð og spaugfuglar fara með gamanmál. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir,“ segir í tilkynningu.
Tilefnið er að 100 ár eru liðin frá fæðingu Magnúsar Guðmundssonar frá Hvítárbakka en hann var vel þekktur söngmaður og mikill tónlistarunnandi í sinni sveit, starfaði með ýmsum kórum, söng inn á hljómplötur og á tónleikum víða um heim auk þess að sinna hefðbundnum störfum á Íslandi, í Bandaríkjunum og Danmörku. Á Danmerkurárum sínum festi Magnús kaup á forláta slaghörpu sem hann lét flytja til landsins og gaf síðan félagsheimilinu Brún.
Magnúsarharpa þessi var nýlega yfirfarin og vandlega stillt og mun hún gegna lykilhlutverki á vökunni. Það er tónlistarmaðurinn góðkunni, Jakob Frímann, sonur Magnúsar, sem leiða mun samkomuna en auk hans koma fram þeir Varmalækjarbræður Jakob Sigurðsson trommuleikari og Ásmundur Sigurðsson bassaleikari auk gítarleikarans Eðvarðs Lárussonar og fleiri.
Fluttir verða húsgangar frá Hvítárbakka, Varmalæk og Gilsbakka, gamansögur rifjaðar upp frá fyrri tíð og valin lög Stuðmanna flutt í bland við aðra tónlist Jakobs allt frá Jobba Maggadon of JFM að Jack Magnet. Sérstakur gestur á Magnúsarvöku verður borgfirska söngkonan og söngvaskáldið Soffía Björg.
Sem fyrr segir er aðgangur ókeypis og öllum heimill.