
Norðurá í Borgarfirði. Ljósm. Þórhildur Þorsteinsdóttir
Flóð í öllum ám og gul viðvörun í gildi
Veðurstofan varar með gulri viðvörun við hættu á grjóthruni, skriðum og krapaflóðum, samhliða mikilli úrkomu og vatnavöxtum. Á þetta við um sunnanverða Vestfirði auk Suður- og Vesturlands. Samhliða gríðarlegri úrkomu og hlýindum frá því í gær eru ár um allt Vesturland í miklum vexti og eru að ryðja sig. Það leiddi meðal annars til þess að nýja brúin yfir Ferjukotssíkin hrundi í morgun vegna þunga ísjaka sem undirstöður brúarinnar þoldu ekki, eins og sagt var frá hér á vefnum í morgun.
Meðfylgjandi myndir tók Þórhildur Þorsteinsdóttir bóndi á Brekku í Norðurárdal af Norðuránni sem er eins og stórfljót yfir að líta. Flest tún Brekkubænda eru nú undir vatni.
