Fréttir
Hér er brúin að falla. Skömmu eftir að myndin var tekin féllu tveir síðustu stólparnir sem héldu brúnni uppi vestanmegin. Brúin er nú fallin. Ljósm. Skessuhorn/kj

Brúin yfir Ferjukotssíkin hrundi í morgun

Mikil flóð eru víða í ám og lækjum í Borgarfirði í kjölfar úrhellisrigningar og hlýinda. Í morgun gerðist það svo að brúin yfir Ferjukotssíkin hrundi vegna flóða og klakaburðar um ána. Meðfylgjandi myndir tók Kristín Jónsdóttir ljósmyndari og félagi í Björgunarsveitinni Ok í Borgarfirði. Sveitin fór í nótt til aðstoðar ferðafólki á þjóðveginum við Kattarhrygg í Norðurárdal. Á heimleiðinni ók björgunarsveitarfólk Eskiholtsveginn, yfir síkin og sá að í stefndi í óefni. Um klukkan 8 í morgun fóru þau aftur á vettvang og urðu vitni að því þegar brúarstólparnir gáfu sig hver af öðrum undan klakaburði og náði Kristín meðfylgjandi myndum af því þegar brúin hrundi. Skömmu síðar fóru hinir stólparnir sem héldu brúnni uppi og er hún nú að hverfa í djúpið.

Núverandi brú yfir síkin var byggð fyrir tveimur árum í kjölfar þess að önnur af tveimur gömlu brúnum gaf sig í vatnavöxtum. Var gerð ein lengri og var það hún sem hrundi nú rétt í þessu.

Brúiargólfið er nú byrjuð að slitna frá bakkanum austan megin. Ljósm. kj

Brúin yfir Ferjukotssíkin hrundi í morgun - Skessuhorn