Fréttir
Brúin yfir Þverá neðan við Norðtungu virkar sem tappi á ísjakana sem eru að hlaðast upp. Ljósm. hig

Árnar ryðja sig og klakastíflur hlaðast upp

Árnar í uppsveitum Borgarfjarðar eru nú hver af öðrum að ryðja sig eftir asahláku og úrkomu síðustu daga. Meðfylgjandi myndir voru teknar fyrr í dag og sýna m.a. hvernig er umhorfs við Grímsá, Norðurá, Þverá og Örnólfsdalsá og Ferjukotssíkin þar sem engin brú er lengur. Við þessar aðstæður hlaðast upp klakastíflur með tilheyrandi flóðum ofan þeirra.

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar hafði um hádegið í dag fengið tilkynningar um þrjú krapaflóð á Vesturlandi og sunnanverðum Vestfjörðum. „Á Vestfjarðarveg um Bröttubrekku féll krapaflóð við sveitarfélagamörkin. Í Reykhólasveit lokaði krapaflóð vegi rétt austan við afleggjarann að Miðhúsum, sem féll sennilega úr farvegi við Miðhúsahyrnu. Í Kjálkafirði féll einnig flóð sem náði vegi, þar sem grjót og krapi fór á veg rétt vestan við Auðshaug. Vatnavextir eru miklir víða á vestanverðu landinu og hafa valdið tjóni.“ Á vef Vegagerðar kemur fram að vatn flæði yfir vegi Vestanlands og að hætta sé á grjóthruni. Ofanflóðavakt bendir fólki á að fylgjast vel með þeirra vef ef fólk er á ferðinni. Enn er hætta á að fleiri krapaflóð falli í giljum og árfarvegum í rigningunni í dag, einnig eru líkur á að skriður falli. Á morgun, fimmtudag, berast kaldir straumar til landsins og dregur þá úr hættu á krapaflóðum og skriðum.

Áin er búin að ryðja sig neðan við veiðihúsið í Grímsá en klakastíflur neðar í ánni. Ljósm. hig
Hvítárvellir umflotnir vatni. Ljósm. Sveinbjörn Eyjólfsson
Ísinn hrannast upp ofan við brúna á Þverá neðan við Norðtungu. Ljósm. hig

Norðurá eins og stjórfljót yfir að líta fyrr í dag og flæðir yfir tún. Ljósm. Þórhildur Þorsteinsdóttir.

Brúin yfir Ferjukotssíkin er gjörónýt. Ljósm. Kristín Jónsdóttir

Árnar ryðja sig og klakastíflur hlaðast upp - Skessuhorn