
Óvissa ríkir um rekstraraðila Baldurs
Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í byrjun desember átti fyrirtækið Ferjuleiðir ehf. lægsta tilboð í rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs frá og með næsta vori. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 1750,6 milljónir króna sem var 91,8% af áætluðum rekstrarkostnaði Vegagerðarinnar. Tvö önnur tilboð bárust. Sjótækni ehf bauð 1795,7 milljónir króna og loks buðu Sæferðir ehf., núverandi rekstraraðili, 2050,1 milljónir króna. Vegagerðin tilkynnti 20. desember um að tekið yrði tilboði lægstbjóðandi í siglingarnar. Málið er hins vegar í óvissu. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Sjótækni, sem átti næstlægsta tilboðið, kærði niðurstöðu útboðsins til kærunefndar útboðsmála á þeirri forsendu að lægstbjóðandi hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar. Nú er beðið niðurstöðu kærunefndar og liggur úrskurður ekki fyrir samkvæmt vef kærunefndar.