Fréttir

80´s kvöld í Bíóhöllinni á föstudaginn

Næsta föstudagskvöld verður haldið 80´s kvöld í Bíóhöllinni á Akranesi sem Skagamaðurinn og blaðamaður Skessuhorns, Valdi Kriss, stendur fyrir. Um er að ræða það sem kallast á ensku Lip Sync og hefur ekki verið gert með þessum hætti á klakanum svo vitað sé. Valdi segir að á dagskrá verði vinsæl 80´s lög og valin í samráði með nokkrum sönghópum og einstaklingum sem flytja lögin á sviði og það verði spennandi að sjá hvernig tekst til. Þá er stefnan að fólk geti sungið með í lögunum að vild enda verði tónlistin í hærri kantinum til að framkalla stuð og stemningu.

„Með mér sem kynnir á kvöldinu verður Ásgeir Eyþórsson sem kannski einhverjir þekkja úr þáttunum Árið er á Rás 2 og við ætlum að sjá um að halda hressleikanum í fyrirrúmi. Verðið á þennan viðburð er 1980 krónur í samræmi við áratuginn góða og er fyrir eldri en 18 ára. Gaman væri ef gestir kæmu í 80´s fatnaði til að upplifunin verði sem best enda er stefnan að þetta verði partý ársins,“ segir Valdi. Hann bætir við að lokum að vel hafi gengið að selja á viðburðinn en hægt verði að kaupa miða í Bíóhöllinni á miðvikudaginn, frá klukkan 17 til 19.

80´s kvöld í Bíóhöllinni á föstudaginn - Skessuhorn