
Fundað um fjarskiptasamband nærri jarðhræringunum
Á morgun, þriðjudag, mun Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgarbyggðar eiga fund með fulltrúum fjarskiptafyrirtækisins Mílu og Veðurstofunnar. Tilefnið er að bæta fjarskiptasamband á svæði í norðvestanverðri Borgarbyggð, í Hítardal, Hraundal og fjalllendinu þar fyrir ofan. Það nær m.a. til svæðisins nærri Grjótárvatni þar sem tíðir jarðskjálftar hafa verið að undanförnu. Skjálftarnir benda til kvikuinnskots á miklu dýpi sem mögulega getur leitt til eldgoss.
Stefán Broddi segir í samtali við Skessuhorn að bæði sveitarfélagið og Veðurstofan séu sammála um að tilefni sé til að auka vöktun á svæðinu og til að svo megi vera þurfi að bæta fjarskiptasamband. Um leið verði til eftirspurn eftir að fjarskiptasamband verði bætt og vonast hann til að Míla bregðist vel við en erindi hefur einnig verið beint til fleiri fjarskiptafyrirtækja. Öruggt fjarskiptasamband getur tryggt vöktun sem felst m.a. í að bæta mælanetið, hefja gasmælingar og fylgjast með Grjótárvatni.
En fjarskiptasamband yrði þá ekki einvörðungu í þágu Veðurstofunnar, heldur einnig íbúa sem í áravís hafa búið við lítið sem ekkert farsímasamband, eða allt frá því NMT farsímakerfið var lagt af. Það á t.d. við um bæinn Hítardal þar sem föst búseta er allt árið og svæðið við Hítarvatn en fjöldi ferðafólks er þar jafnan á ferðinni.