Fréttir
Birta Björk Birgisdóttir og móðir hennar, María Magnúsdóttir. Ljósm. mm

„Ég er svo spennt að fá heilsuna aftur“

Rætt við Birtu Björk Birgisdóttur sem þrátt fyrir veikindi sín leggur mikla áherslu á að fólk lifi og njóti

Næstkomandi miðvikudagskvöld verða í Hjálmakletti í Borgarnesi tónleikar til stuðnings Birtu Bjarkar Birgisdóttur, 22 ára konu í Borgarnesi sem í nóvember greindist með illvígt krabbamein sem einungis leggst á ungt fólk. Hún hafði fram á síðasta haust verið mjög hraustur einstaklingur. Á tónleikunum mun fjöldi listamanna koma fram og skapa notalega kvöldstund en afraksturinn af miðasölu rennur óskiptur til Birtu og fjölskyldu hennar. Hún er nú hálfnuð í mjög stífri níu lotu lyfjagjöf á Landspítalanum. Þannig vildi til að móðir Birtu; María Magnúsdóttir, greindist sjálf með krabbamein í byrjun síðasta árs. Þær mæðgur styðja því hvor aðra í baráttunni og leið þeirra til bata á ný. Blaðamaður Skessuhorns ræddi við þær Birtu og Maríu síðastliðinn sunnudag.

Þéttur vinahópur

Birta Björk og Magnús 18 ára bróðir hennar hafa búið með móður sinni í Borgarnesi frá því Birta var sex ára. „Mamma og pabbi skildu þegar ég var sex ára og býr hann í Reykjavík. Ég byrjaði skólagönguna í sex ára bekk í Borgarnesi en við áttum reyndar heima í Stykkishólmi í þrjú ár eftir það og þar var ég í skóla. Ég fæddist í Reykjavík en við höfum búið á nokkrum stöðum. Ég fór svo í fjórða bekk í Grunnskólann í Borgarnesi og hef búið í Borgarnesi eftir það. Fór í Menntaskóla Borgarfjarðar og útskrifaðist sem stúdent 2021,“ segir Birta Björk. Aðspurð segist hún alla tíð hafa verið hraust og tekið virkan þátt í lífi og starfi með jafnöldrum sínum í Borgarnesi. „Ég á ótrúlega þéttan og góðan vinahóp sem hefur aldeilis reynst mér vel eftir að þessi veikindi komu upp,“ segir Birta.

„Ég ætla mér að verða góð aftur og láta draumana rætast.“

Grunaði síst það sem var

Birta segir að það hafi verið í nóvember sem hún var greind með sjúkdóminn en rifjar upp að það var 15. september í haust sem hún fór fyrst að finna fyrir einkennum, sem hún langt frá því tengdi við krabbamein. „Fyrstu einkenni voru þau að í september fór ég að finna til í kálfanum. Hann var orðinn hálf harður og ég átti erfitt með að hreyfa ökklann. Þessi einkenni komu og fóru. Ég hélt náttúrlega að þetta væri vísbending um að ég þyrfti að vera duglegri að hreyfa mig! En þar sem ég er frekar stressuð týpa fór ég að gúgla hvað mögulega væri að hrjá mig. Svo fór ég að finna verk í mjóbakinu en datt ekki til hugar að þetta tengdist eitthvað kálfanum. Hélt kannski að þetta væri klemmd taug eða eitthvað slíkt. Þessi einkenni ágerðust og ég var orðin mjög verkjuð þegar leið á haustið. Hélt meðal annars að ég væri að fá blóðtappa í fótinn eða eitthvað slíkt. Fór meira að segja í göngugreiningu til að kanna hvort ég þyrfti að fá innlegg í skóinn eða eitthvað slíkt væri ástæðan. Ég fæ svo að endingu hjúkrunarfræðing til að líta á mig, hún útilokar blóðtappa en ákveður að senda mig til læknis. Ég hitti lækni í lok október. Hann grunar fyrst brjósklos en ákveður til öryggis að senda mig í myndatöku. Þá sjá læknarnir meinið og blóðprufa sem ég fer í samhliða þeirri rannsókn kemur sérlega illa út,“ lýsir Birta Björk.

Sjaldgæf og erfið tegund

Krabbameinið sem Birta Björk er með nefnist Ewing-sarcoma; sjaldgæf tegund sem einkum greinist hjá börnum og mjög ungu fólki. Þessi tegund leggst á bein, mjúkvef og beinmerg. Líklega hefur það byrjað í kálfanum og meinvörp síðan dreifst þaðan í hrygg. Birta Björk byrjar strax í desember á mjög stífri lyfjameðferð á Landspítalanum við Hringbraut. Meðferðin er í níu lotum sem hver og ein eru ólíkar. Í síðustu viku var hún t.d. í þriggja daga lyfjagjöf og lá þá inni á spítalanum á meðan. Næst tekur við fimm daga lota þar sem lyfjagjöfin er í fimm tíma í senn alla dagana. Alls eru þetta níu lyfjalotur. 29. janúar næstkomandi fer hún síðan í myndatöku og svo aftur eftir að þessar níu lyfjalotur eru búnar og þá munu læknarnir meta árangur lyfjagjafar og taka ákvörðun um næstu stig í meðferðinni. Mögulega ákveða þeir meiri lyfjagjöf eða geisla og jafnvel skurðaðgerð. Það kemur bara í ljós, en Birta Björk viðurkennir að það sé erfitt að bíða því óvissan er mikil um hvernig lyfin eru að virka. Sjálf er hún þó vongóð enda bjartsýn að eðlisfari og segir jákvætt að nú geti hún í það minnsta hreyft ökklann án verkja.

Saman í þessu

Síðasta ár var þeim mæðgum; Maríu og Birtu Björk, erfitt. Í janúar fyrir ári síðan var María greind með krabbamein. Fann sjálf ber í brjósti sem reyndist illkynja. Hún var send í lyfjagjöf og síðan í fleygskurð og geislameðferð. Hún segir að meðferð hennar hafi gengið vel, fór í sex stórar lyfjagafir á árinu og á eina eftir. Hún fer svo í myndatöku og kveðst bjartsýn á gott gengi. „Við erum rosalega góðar saman mæðgurnar, erum báðar að glíma við sitt hvora gerðina af krabba. Reynslan sem mamma gekk í gegnum nýtist mér, þótt meinin okkar séu ólík, en það er gott fyrir mig að mamma var búin að kynnast því hvernig kerfið virkar,“ segir Birta. María segir þetta vissulega hafa verið stóran pakka hjá þeim á síðasta ári, en öllu erfiðara hafi henni reynst þegar dóttirin var greind undir lok síðasta árs.

Jákvæðnin skiptir öllu

Þau eru þrjú í fjölskyldunni; María og systkinin Birta Björk og Magnús Baldur sem nú er 18 ára og nemandi í MB.  „Magnús bróðir minn er þessi hressi, peppaði, djókara bróðir og mikill vinur. Það er gott að hafa hann í lífi sínu þegar svona dynur yfir,“ segir Birta. „Stundum koma erfiðir dagar og þá er gott að hafa góðan bróður og móður við hendina. Pabbi er í Reykjavík og gott að eiga hann að þar. Sjálf reyni ég að djóka um hlutina líkt og bróðir minn, finnst mikilvægt að sjá spaugilegu hliðarnar á þessu öllu saman. Mér finnst skipta svo óendanlega miklu máli að reyna að vera jákvæð, það fleytir manni svo langt. Það er allavega ekki í boði að gefast upp. En ég viðurkenni það vel að óvissan er verst.“

Þakklátar samfélaginu

Þær María og Birta Björk eru ótrúlega þakklátar samfélaginu í Borgarbyggð fyrir það hvernig allir virðast boðnir og búnir að rétta þeim hjálparhönd. „Það er svo gott fyrir sálina, raunar ómetanlegt, að finna þann hlýhug og góðvild sem við erum hvarvetna að fá,“ segir Birta. „Það byrjaði á að það var hringt í okkur og spurt hvort það „mætti“ skipuleggja styrktartónleika fyrir okkur. Maður fór bara að gráta yfir slíkri góðmennsku,“ segir María. „Við höfum sannanlega fundið vel fyrir kostum þess að búa í litlu samfélagi eins og Borgarnesi. Samfélag þar sem reynt er að grípa utan um einstaklinginn. Fyrir það erum við óendanlega þakklátar,“ segja þær María og Birta.

Fólk sem allt gefur vinnu sína

Tónleikarnir í Hjálmakletti verða eins og fyrr segir næstkomandi miðvikudagskvöld klukkan 20. Fjöldi tónleikafólks kemur fram og Gísli Einarsson stýrir skemmtuninni. Fram koma tónlistarmenn úr ýmsum áttum og fulltrúar mismunandi tónlistarstefnu og strauma. Allir sem að tónleikunum koma gefa vinnu sína. Þá hefur verið auglýstur styrktarreikningur í nafni Birtu sjálfrar og segist hún ótrúlega hrærð yfir þeim stuðningi sem hún er að fá þar. „Fólk er að styrkja mig og sýnir ótrúlega hlýju með því. Svo er fólk að hringja í okkur og taka utan um okkur úti í búð eða senda falleg skilaboð. Svo er fólk sem segist biðja fyrir okkur og sýnir jákvæðni á svo ótrúlega ólíkan en fallegan máta,“ segir Birta. Móðir hennar tekur undir orð dóttur sinnar og segir að fólki bregði vissulega þegar ung manneskja veikist svo alvarlega.

Birta Björk hefur frá útskrift úr MB mátað sig í nám, bæði í félagsfræði við HÍ og síðan í snyrtifræði, en segir hvorugt hafa hentað sér. Hún hefur verið starfsmaður hjá Olís í Borgarnesi og einkum staðið næturvaktir, eða þar til í haust. Sökum veikindanna og lyfjameðferðarinnar hefur hún ekki getað sótt vinnu undanfarnar vikur. „Núna er ég „bara“ í þessu. Er reyndar ennþá að fá laun í veikindaleyfi og fæ svo mögulega endurhæfingarlífeyri. Svona veikindi eru náttúrlega högg fjárhagslega því það fylgir alls konar lyfjakostnaður, sem að hluta til er samt niðurgreiddur, og svo ferðalög og annað.“

Kíkt í Kallabakarí og á karlinn á blaðinu

Birta Björk var á sunnudaginn þokkaleg til heilsunnar eftir síðustu innlögn vegna lyfjagjafar sem stóð fram á fimmtudag. Upphaflega stóð til að viðtalið færi fram á föstudaginn, en þá var hún ekki nógu hress. Á sunnudaginn var svo slegið til, þær mæðgur ákváðu að fara í sunnudags bíltúr á Skagann, kíkja í Kallabakarí og hitta blaðamanninn. „Fólkið í samfélaginu mínu, sem hefur reynst mér svo vel, á það inni hjá mér að ég segi frá þessu verkefni sem ég og mamma erum í,“ segir Birta Björk og ekki er laust við að blaðamaður dáist að viðhorfi þessarar ungu og glæsilegu konu sem lýsir sér í þakklæti hennar til samfélagsins sem stutt hefur við fjölskylduna á síðustu vikum.

Ætla að læra söng

„Mér finnst alveg ótrúlega mikilvægt í svona veikindum að setja það markmið að ætla sér að vinnast á meininu og setja sér plön fyrir framtíðina. Því segi ég hiklaust að ég er svo spennt að fá heilsuna aftur. Ég og allir þurfum að muna að njóta dagsins í dag; lifa og gleðjast. Ég ætla mér að verða góð aftur og láta draumana rætast. Til dæmis er ég ákveðin í að læra á snjóbretti og svo ætla ég að ferðast en einnig að læra söng og leiklist,“ segir Birta og María skýtur því inn í að dóttir hennar hafi verið farin að syngja löngu áður en hún fór að tala. „Ég er mikil félagsvera og á alveg ótrúlega þéttan og góðan vinahóp sem stendur við bakið á mér. Það er mikils virði þegar svona hendir. Ég vil svo að endingu koma óendanlega miklu þakklæti til allra sem hafa stutt við mig og mömmu, skipulagt tónleikana á miðvikudaginn og létt undir með okkur með sínum hætti,“ segir Birta Björk Birgisdóttir að endingu. Við þökkum henni og Maríu Magnúsdóttur fyrir komuna og óskum þeim góðs gengis. Að endingu er minnt á styrktarreikning:

Reikningsnúmer: 0326-26-001751. Kennitala: 301102-2320.

Birta Björk Birgisdóttir við útskriftina úr MB. Ljósm. María Magnúsdóttir