
Samþykktu tekjumörk vegna afsláttar af fasteignaskatti
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær var lögð fram og samþykkt tillaga að tekjumörkum vegna afsláttar fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega í sveitarfélaginu. Tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar sem eiga lögheimili í Borgarbyggð eiga rétt á afslætti af fasteignaskatti skv. reglum og ákvörðun sveitarstjórnar hvert ár. Hjá hjónum og sambýlisfólki ræður aldur þess er fyrr verður 67 ára. Afsláttur nær einungis til íbúðarhúsnæðis sem viðkomandi býr sjálfur í. Afsláttur ræðst af tekjum undanfarandi árs og er reiknaður til bráðabirgða við álagningu út frá öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða hjóna/sambúðarfólks, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekjum samkvæmt síðasta skattframtali, en þegar staðfest skattframtal liggur fyrir vegna tekna síðasta árs er afsláttur endurskoðaður og leiðréttur. Byggðarráð samþykkti að fyrirkomulag afsláttar verði með óbreyttum hætti en hækkun verði 5,6% frá fyrra ári sem er í takti við breytingu á launavísitölu á milli ára og hækkun ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins á milli ára.