Fréttir

Mikið var um umferðaróhöpp á Vesturlandi

Síðustu tvær vikur voru rúmlega 20 ökumenn stöðvaðir vegna of hraðs aksturs í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi. Tveir ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tvö fíkniefnamál komu upp þar sem haldlögð voru meint fíkniefni í neysluskömmtum. Vetrarfærð hefur verið undanfarið og fjöldi umferðaróhappa og slysa hafa komið upp og orsakaþættir í mörgum málanna hefur verið slæm færð eða veður. Útafakstur varð á Akrafjallsvegi, minniháttar meiðsli á fólki en einhverjar skemmdir á ökutæki. Bílvelta varð nærri Stykkishólmi en minniháttar meiðsli á fólki. Harður árekstur varð milli tveggja ökutækja á Innnesvegi, þrír voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahús en meiðsli voru ekki talin alvarleg. Ekið var á ljósastaur og hafnaði bifreiðin í framhaldinu út af veginum á Stykkishólmsvegi, engin slys urðu á fólki en bifreið og ljósastaur skemmdust. Rúta með níu farþegum hafnaði utan vegar á Snæfellsnesvegi og valt, óveruleg meiðsli urðu á fólki. Bifreið hafnaði á ljósastaur á Hvalfjarðarvegi, engin slys á fólki en skemmdir á bifreiðinni og staurnum. Þrjár bifreiðar höfnuðu utan vegar á sama stað á Vesturlandsvegi nærri Sveinatungu, mikil hálka var á vettvangi en bifreiðarnar skemmdust lítið og ekki urðu slys á fólki. Dráttarbifreið kom á vettvang og aðstoðaði ökumenn við að komast aftur inn á veginn. Árekstur þriggja bifreiða varð á Vesturlandsvegi við Hafnarfjall, hálka og skafrenningur var á vettvangi og skyggni lítið. Meiðsli á fólki óveruleg en einhverjar skemmdir á bifreiðum.

Mikið var um umferðaróhöpp á Vesturlandi - Skessuhorn