
Almannavarnarnefnd boðuð til fundar næstu daga
Í undirbúningi er að Almannavarnanefnd Vesturlands fundi á næstu dögum og boði til sín fulltrúa ríkislögreglustjóra og fleiri gesti til skrafs og ráðagerða. Að sögn Björns Bjarka Þorsteinssonar sveitarstjóra í Dalabyggð, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, er tilefni að hittast og bera saman bækur sínar í ljósi þess óróa sem er að mælast í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Ljósufjöll, einkum við Grjótárvatn. Í almannavarnanefnd sitja oddvitar, sveitar- og bæjarstjórar sveitarfélaganna á Vesturlandi auk lögreglustjóra Vesturlands, yfirlögregluþjóns og slökkviliðsstjóra.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands er talið líklegt að kvikuinnskot hafi verið að brjóta sér leið á miklu dýpi undir Grjótárvatni. Hefur það valdið jarðskjálftavirkni þeirri sem er að mælast og sumsstaðar orðið vart í byggð. Stærsti skjálftinn í þessari hrinu varð 18. desember „Fimmtudaginn 2. janúar mældist samfelld óróahviða milli kl. 17 og 18 með upptök við Grjótárvatn. Óróahviðan sem varði í um 40 mínútur er mynduð af samfelldum smáskjálftum, sem flestir eru of smáir til að hægt sé að staðsetja þá, en einungis tveir skjálftar innan hviðunnar eru staðsettir. Þeir eru á rúmlega 15 km dýpi og af stærð M1,5 og 1,8. Alls voru um 20 jarðskjálftar þennan dag, allir á 15-20 km dýpi og af stærð M0,1-2,0,“ segir í yfirliti Veðurstofunnar. Þá er á það bent að venjulega mælast ekki skjálftar hér á landi á svo miklu dýpi, en þó eru nokkur dæmi um slíkt í eldstöðvum eins og Eyjafjallajökli árið 1996 og við Upptyppinga árið 2007 í tengslum við kvikuinnskot og einnig nokkuð reglulega austan við Bárðarbungu. „Í þessum eldstöðvarkerfum er talið að ferlin sem valdi djúpum jarðskjálftum og smáskjálftavirkni sé aukinn þrýstingur í jarðskorpunni vegna kvikuinnskots sem veldur því að hún brotnar.“
Í gærmorgun var haldinn mánaðarlegur fundur á Veðurstofu Íslands þar sem farið var yfir nýlega virkni í eldstöðvum á landinu. Þar var virknin við Grjótárvatn rædd og mögulegar skýringar á henni settar fram. Frekari greining á jarðskjálftagögnum frá árunum 2021-2024 við Grjótárvatn var gerð nýlega. Greiningin sýnir að virknin hefur hátt b-gildi (~2), svipað og var í djúpri skjálftahrinu við Upptyppinga árið 2007. Há b-gildi eru oft tengd jarðskjálftum á eldvirkum svæðum og lýsa óvenju háu hlutfalli lítilla skjálfta.