Fréttir
Steinþór Logi Arnarsson Vestlendingur ársins 2024 með blóm og áritaða kristalskál frá Skessuhorni. Ljósm. mm

Steinþór Logi Arnarsson er Vestlendingur ársins 2024 – viðtal

Snemma í desember auglýsti Skessuhorn eftir tilnefningum frá íbúum um hver skyldi hljóta sæmdarheitið Vestlendingur ársins 2024; hver væri sá íbúi sem hefði á einhvern hátt skarað fram úr á árinu. Þetta er í 27. skipti sem Skessuhorn gengst fyrir þessari útnefningu og í áranna rás hefur fjöldi fólks víðs vegar um landshlutann hlotnast þessi heiður af ýmsum og býsna ólíkum ástæðum. Nú sem fyrr lögðu íbúar lóð á vogarskálina og ber að þakka fjölmargar tilnefningar sem bárust. Efstu fimm í kjörinu voru (í stafrófsröð): Andrea Þórunn Björnsdóttir á Akranesi, Ólavía Þorkelsdóttir Skarstad á Akranesi, Piotr Wieslaw Kowalak garðyrkjustjóri hjá Borgarbyggð, Sigrún Hjartardóttir Heilsuhofi í Borgarfirði og Steinþór Logi Arnarsson bóndi í Dölum.