
Jörð heldur áfram að skjálfa á Mýrunum
Síðastliðinn sólarhring hafa 24 jarðskjálftar mælst á afmörkuðu svæði nærri Grjótárvatni ofan við Mýra, en það er um 25 kílómetra norðan við Borgarnes. Stærsti skjálftinn mældist klukkan 8 í morgun, 2,4 stig. Jarðfræðingar sem rætt hefur verið í fjölmiðlum undanfarna daga segja ljóst að kvika sé nú að brjóta sér leið ofar í jarðskorpuna í eldstöðvakerfi Ljósufjalla en það nær allt frá Snæfellsnesi og í Borgarfjörð. Kvikan sé þó engu að síður á miklu dýpi enn sem komið er.
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands líkir óróahviðum í Ljósufjallakerfinu við þær sem sáust í aðdraganda eldsumbrotanna á Reykjanesskaga. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur vakti um miðjan desember athygli á að mun stærri jarðskjálftahrina hafi orðið í Ljósufjöllum árið 1938 með stærsta skjálfta upp á 5,2 stig. Jarðskjálfti upp á 3,2 stig, sem varð 18. desember við Grjótárvatn í fjöllunum ofan Mýra, var að sögn náttúruvársérfræðings Veðurstofunnar sá stærsti frá upphafi mælinga á þessum stað, eða frá því skjálftakerfi Veðurstofunnar var tekið í notkun árið 1991.