Fréttir

Kallað eftir ábendingum um hagræðingu í ríkisrekstri

Ný ríkisstjórn undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur sett á Samráðsgátt stjórnvalda beiðni um að almenningur komi með tillögur um hvernig hagræða megi í rekstri ríkisins. „Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar er að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar. Ríkisstjórnin boðar í því skyni til samráðs við þjóðina undir yfirskriftinni Verum hagsýn í rekstri ríkisins,“ segir í tilkynningu. Hægt verður að senda inn ábendingar, ýmist undir nafni eða með nafnleynd, til 23. janúar næstkomandi. Gáttin var opnuð í gær og hafa nú þegar hátt í eitt þúsund manns skilað inn umsögn. Í ábendingum fólks kennir ýmissa grasa, eins og gefur að skilja.