Fréttir
Skjálftavirknin í Mýrafjöllum á árinu. Dreifing skjálftanna virðist ekki fylgja neinni sprungustefnu og dreifist um takmarkað svæði.

Stærsta saga ársins hinn mikli vöxtur jarðskjálfta í Mýrafjöllum

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands (ENSu) heldur úti athyglisverðri síðu um jarðhræringar hér á landi. Í annál sínum um árið sem nú er að líða er meðal annars rætt um jarðhræringarnar á Ljósufjalla eldstöðvakerfinu. Þar segir: „Á eftir umbrotunum í Svartsengi var stærsta saga ársins hin mikli vöxtur í skjálftavirkninni í Mýrafjöllum á Snæfellsnesi. ENSu hefur reglulega fjallað um stöðuga skjálftavirkni á þessum slóðum sem hófst á vormánuðum 2021. Virknin jóxt margfalt þegar líða tók á árið. Skjálfti upp á 3,2 skömmu fyrir jól er stærsti skjálfti sem mælst hefur á þessum slóðum. Í nokkur skipti hefur orðið vart við skammlífar óróahviður, sem er sterk vísbending um að kvika sé að leika um jarðskorpuna á töluverðu dýpi. Engar vísbendingar eru þó um að kvika sé að nálgast yfirborð og gæti virknin því frekar orsakast af kvikusöfnun á mörkum jarðskorpu og möttuls, sem veldur spennu á stóru svæði. Virknin er að mestu á 15-20 km dýpi, en til samanburðar er kvikusöfnun grunnt undir Svartsengi talin eiga sér stað á um 3-4 km dýpi.“

Stærsta saga ársins hinn mikli vöxtur jarðskjálfta í Mýrafjöllum - Skessuhorn