
Fasteignagjöld hækka á Akranesi
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Akraneskaupstaðar fyrir næsta ár samþykkti meirihluti bæjarstjórnar (D og S) að hækka gjaldskrár um 5,6%, nema annað væri sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrám. T.d. voru gjaldskrár sem tengjast börnum og barnafjölskyldum ekki hækkaðar um meira en 3,5%. Hins vegar hækka fasteignagjöld íbúðarhúsnæðis mun meira, eða um 10,1% að jafnaði, sem er meira en verðbólga síðasta árs. Þar við bætist að fasteignamat hækkar almennt á Akranesi. Gjaldskrá fasteignagjalda á Akranesi er nú hækkuð annað árið í röð en því skal til haga haldið að fasteignagjöld á suðvesturhorni landsins voru þau lægstu á Akranesi árið 2023. Í bókun meirihluta bæjarstjórnar um hækkunina nú segir: „Síðasta ár var álagningarprósenta fasteignagjalda hækkuð og hún verður einnig hækkuð nú í áætlun næsta árs. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa það í huga að fasteignamat húsnæðis á Akranesi hækkar mun minna nú á milli ára en raunin hefur verið á síðustu árum,“ segir í bókun meirihlutans.