
Áfram hvasst en veður gengur heldur niður upp úr miðjum degi
Suðvestan stormur með dimmum éljum heldur áfram á sunnan- og vestanverðu landinu í dag. Appelsínugul viðvörun gildir fram á miðjan dag á spásvæðunum Faxaflóa og Breiðafirði, en síðan tekur við gul viðvörun allt þar til í nótt. Áfram verður blint í éljum og skafrenningur með erfiðum akstursskilyrðum, þá einkum á fjallvegum, t.d. Hellisheiði, Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði. Dregur heldur úr vindi síðdegis í dag, en áfram ákveðin suðvestanátt með éljum og vetrarfærð í kvöld og á morgun.
Vegir eru af þessum sökum víða lokaðir. Fram kemur á umferdin.is að Holtavörðuheiði og Brattabrekka eru lokaðar og verður skoðað með opnun þegar veður gengur niður. Þæfingur, hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum og vont færi víða. Hjáleið er um Laxárdalsheiði (59) og Heydalsveg (55). Fróðárheiði er ófær sem og vegurinn um Svínadal í Dölum.