
Ný ríkisstjórn tekin við
Ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins tók formlega við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær, laugardaginn 21. desember. Í ljósi dagsins verður að telja líklegt að hún fái nafnið Sólstöðustjórnin. Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar er forsætisráðherra Íslands. Hún er yngsti forsætisráðherra Íslandssögunnar og yngsti starfandi forsætisráðherra í heiminum. Ríkisstjórnin kynnti stefnuskrá sína á blaðamannafundi fyrr um daginn. Stefnuskráin er fremur stutt en forsætisráðherra segir hana endurspegla traust innan stjórnarinnar. Ráðuneytum verður fækkað um eitt þar sem verkefni menningar- og viðskiptaráðuneytisins verða færð undir önnur ráðuneyti. Jafnfram er lítilsháttar breyting gerð á verkaskiptingu annarra ráðuneyta. Samfylking fær fjóra ráðherra í ríkisstjórn og forseta þingsins, Viðreisn fjóra ráðherra og Flokkur fólksins þrjá.