
Kveðjur úr héraði – Heimilið tók á sig nýja töfra
Ég er fædd 1958 og ólst upp á Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd, sem núna heitir Hvalfjarðarsveit. Við systkinin vorum sjö, en einnig ólst upp með okkur yngsti bróðir mömmu. Foreldrar hans, afi minn og amma, létust þegar þau voru á besta aldri en hann ungur drengur. Ég kynntist þeim því aldrei og ekki heldur föðurömmu minni sem lést af barnsförum þegar faðir minn var lítill drengur. Ég átti föðurafa en hitti hann ekki mjög oft þar sem hann bjó í Reykjavík og það var langt til Reykjavíkur þá. Hann giftist aftur og seinni konan hans var okkur einstaklega góð og okkar stjúpamma. Hún gaf okkur alltaf sokka og eða vettlinga í jólagjöf sem hún prjónaði sjálf og mér þótti einstaklega vænt um þetta og passaði sérstaklega vel upp á að það týndist ekki.