Fréttir
Dalbraut 6 á Akranesi. Ljósm. vaks

Brák kaupir fjölbýlishúsið við Dalbraut 6 á Akranesi af Leigufélagi aldraðra

Leigufélag aldraðra hses. og Brák íbúðafélag hses. hafa komist að samkomulagi um að Brák kaupi öll þrjú fjölbýlishús Leigufélags aldraðra sem eru samtals 80 leiguíbúðir fyrir eldra fólk. Með kaupunum er ætlunin að ná fram aukinni stærðarhagkvæmni og renna styrkari stoðum undir rekstur íbúðanna og áframhaldandi útleigu þeirra til tekju- og eignalægra eldra fólks. Íbúðirnar sem um ræðir eru annars vegar við Dalbraut 6 á Akranesi en hins vegar Vatnsholt 1 og 3 í Reykjavík. Samhliða kaupunum yfirtekur Brák alla leigusamninga Leigufélags aldraðra og hafa kaupin því ekki áhrif á búsetu núverandi leigjenda. Með kaupunum verður til stærra félag sem getur sett enn meiri kraft í uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignalægra eldra fólk.

Brák kaupir fjölbýlishúsið við Dalbraut 6 á Akranesi af Leigufélagi aldraðra - Skessuhorn