
Pétur Pétursson yngri að landa úr Bárði SH. Ljósm. úr safni/af
Svipuð veiðigjöld verða greidd í ár þrátt fyrir loðnubrest
Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs hafa íslenskar útgerðir greitt 8.539 milljónir króna í veiðigjald. Það er 2% lægri fjárhæð en þær höfðu greitt fyrir veiðar á sama tímabili í fyrra en þá var heildarfjárhæðin komin í 8.787 milljónir króna. Enginn loðnukvóti var gefinn út á þessu ári sem hefur óhjákvæmileg áhrif á fjárhæð veiðigjaldsins, enda greiddu útgerðir 1.784 milljónir vegna veiða á loðnu á síðasta ári. Sé veiðigjald af loðnu undanskilið í tölunum teiknast upp allt önnur mynd. Þá er heildarfjárhæð veiðigjaldsins rúmlega 23% hærri á fyrstu tíu mánuðunum í ár en á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í samantekt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. SFS benda á að á næsta ári megi búast við allt að 50% hærri veiðigjöldum í ríkissjóð.