
Varað er við hvassviðri í dag og asahláku
Framundan eru viðvaranir um mestallt landið vegna hvassviðris og asahláku. Við Breiðafjörð er nú kominn sunnan stormur eða rok með vindhraða á bilinu 18-28 m/s. Þar er appelsínugul viðvörun í gildi til miðnættis í kvöld og gul þangað til í fyrramálið. Á spásvæðinu má búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, allt að 40 m/s, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi, hvar ekkert ferðaveður verður. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Talsverð eða mikil rigning og ört hækkandi hitastig fylgir þessari lægð. Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikil hálka getur myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó. Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns.
Á spásvæðinu við Faxaflóa tekur gul viðvörun gildi klukkan 15 í dag og stendur yfir í réttan sólarhring. Þar verður líkt og við Breiðafjörð talsverð eða mikil rigning og ört hækkandi hitastig. Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikil hálka getur myndast þar sem rignir á klakabunka.