Fréttir
Uppsafnað afrennsli (samanlögð rigning og leysing) þangað til í fyrramálið, þriðjudag. Teikning: Veðurstofa Íslands

Hlýindi og leysingar á öllu landinu og hætta á krapaflóðum

Veðurstofan varar við krapaflóðahættu á vestan- og sunnaverðu landinu. Skriðuhætta getur skapast þegar líður á hlýindin. Síðastliðna nótt gekk í sunnanátt og hlýnaði skart, fyrst hér á vestanverðu landinu. Skil ganga svo upp að landinu seinnipartinn í dag með mikilli rigningu og hlýnar enn frekar. Aðfaranótt mánudagsins 9. desember verður mikil leysing á öllu landinu. Mest verður úrkoman á sunnanverðum Vestfjörðum, norðanverðu Snæfellsnesi, á Hellisheiði, auk svæða í grennd við jökla á Suðurlandi. Hiti gæti náð allt að 10°C á láglendi vestanlands, sem þýðir að rigning mun ná upp í fjallstoppa, og því má búast við asahláku á þessu svæði. Jarðvegur er víða frosin eftir kuldatíð og því má búast við miklu afrennsli á yfirborði.

Á norðan- og austanverðu landinu er ekki gert ráð fyrir mikilli úrkomu, en þar gæti hiti nálgast 15° C vegna áhrifa hnjúkaþeys. Gera má ráð fyrir að snjó taki hratt upp á þessum svæðum og mikilli leysingu.

Vegna hlákunnar má búast við vatnavöxtum víða um land, mest á vestan- og sunnanverðu landinu þar sem úrkomu gætir. Hætta verður á krapaflóðum– og skriðum á vestan- og sunnanverðu landinu. Einnig gæti orðið hætta á krapaflóðum á norðan- og austanverðu landinu en ólíklegra vegna lítillar úrkomu. Vot snjóflóð geta fallið þegar hlýnar og fyrst í hlýindunum.

Ekki er hægt að útiloka að samgöngutruflanir geti orðið vegna veðursins og því er fólk hvatt til þess að fylgjast með aðstæðum á umferdin.is

Veðurstofan hefur gefið út viðvarnir vegna vegna hvassviðris, asahláku og vatnavaxta eins og lesa má í fréttinni hér á undan.

Veðurstofan bendir á að til að hægt sé að hafa yfirsýn yfir krapaflóða- og skriðuaðstæður á landinu er mikilvægt að tilkynna slík ofanflóð til ofanflóðavaktar Veðurstofunnar. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á skriduvakt@vedur.is. Gott er að hafa mynd af skriðum og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriða féll eða hvenær fólk varð vart við skriðu.