
Hjalti Halldórsson er hér að svara spurningum á meðan Pálmi Jóhannsson situr rólegur fyrir aftan. Ljósm. tfk
Jólabókaflóð í Samkomuhúsinu í Grundarfirði
Það var sannkallað jólabókaflóð miðvikudaginn 4. desember síðastliðinn. Undanfarin misseri hafa krakkar í Grunnskóla Grundarfjarðar verið að lesa bækur eftir fjóra barnabókahöfunda undir dyggri leiðsögn Lilju Magnúsdóttur sem sér um skólabókasafn grunnskólans. Hápunkturinn var svo á miðvikudaginn þegar þessir fjórir rithöfundar lögðu leið sína til Grundarfjarðar þar sem hinir ungu lesendur fengu tækifæri til að spjalla við höfundana og spyrja þá spjörunum úr. Reyndar forfallaðist einn rithöfundurinn en því var kippt í liðinn með hjálp tækninnar þar sem hún spjallaði við krakkana í gegnum samskiptaforritið Teams.