Fréttir

Gera ráð fyrir góðum rekstrarafgangi og lækkun skulda árið 2025

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur samhljóða samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana þess fyrir árið 2025. Í henni er gert ráð fyrir að bæjarsjóður skili rekstrarafgangi upp á rúmar 85 milljónir af A-hluta sjóðum, en um 154 milljónum hjá samanteknum A og B hluta sjóðum. Það þýðir að reksturinn gefur ákveðið svigrúm til fjárfestinga og því þarf ekki að fjármagna fjárfestingar næsta árs með lántöku. Skuldahlutfall Snæfellsbæjar í ársreikningi 2023 var 69% hjá A-hluta og 58,14% hjá samanteknum reikningi A- og B-hluta, en ef notað er skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga, þá fer prósentan niður í 47,83% hjá A-hluta og 37,05% fyrir samstæðuna. Þar sem engin lán voru tekin á árinu 2024 er gert ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar lækki enn frekar nú í árslok og jafnframt er gert ráð fyrir að það lækki áfram árið 2025 þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni lántöku. Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt á milli ára eða 14,97%.

Gera ráð fyrir góðum rekstrarafgangi og lækkun skulda árið 2025 - Skessuhorn