Fréttir
Frá sýningunni Vítahring. Ljósm. vaks

Vel gerður Vítahringur í Grundaskóla

Söngleikurinn Vítahringur var frumsýndur síðasta föstudag í Grundaskóla á Akranesi. Að sýningunni standa nemendur í 10. bekk og er söngleikurinn byggður á samnefndri sögu Kristínar Steinsdóttur. Sú saga er byggð á Harðar sögu Grímkelsssonar sem gerist að mestu leyti í næsta nágrenni Akraness og í Hvalfirði á landnámsöld. Blaðamaður Skessuhorns skellti sér á Vítahring á mánudaginn og ekki annað hægt að segja og skrifa en að um afar vel heppnaða sýningu sé að ræða enda fengu leikarar veglegt lófaklapp að lokinni sýningu.

Í stuttu máli segir sagan frá ævi hetjunnar Harðar Grímkelssonar, fjölskyldu hans og vina. Hörður var mikill kappi og afbragð annarra manna og eftir fimmtán ár erlendis fluttist Hörður heim til Íslands og gerðist bóndi. Fljótlega kom í ljós að bardagakappinn var ekki gerður fyrir kyrrlátt líf bóndans og að lokum var hann dæmdur sekur fyrir mannvíg og spellvirki.

Aðalpersónur Vítahrings eru Grímkell, sonur Harðar sem er á unglingsaldri og þrællinn Afreka. Grímkell er friðarsinni og er ekki mikið fyrir að lyfta sverði eins og tíðkaðist á þessum tíma og vill helst yrkja ljóð. Afreka sér ekki mikla framtíð fyrir sér en eygir von um betra líf með Grímkeli. Þau eru leikin af Róberti Leó Steinþórssyni og Aldísi Karen Stefánsdóttur og er samleikur þeirra til fyrirmyndar. Sömuleiðis er móðir Grímkels, Helga Jarlsdóttir, fyrirferðarmikil í sýningunni en hún er leikin af Jóhönnu Vilborgu Guðmundsdóttur sem er afar örugg í sínum leik. Þá má einnig nefna Róbert Ella Vífilsson sem var hávær og hress sem Glúmur og þá kom Eva Þóra Sigurjónsdóttir sterk inn í síðustu senu sýningarinnar í hlutverki Þorbjargar þar sem hún skaut skjólshúsi yfir þau Helgu og Grímkel eftir sund þeirra úr Geirshólma. Önnur helstu atriði sögunnar komast vel til skila þótt yngri kynslóðin, afkomendur aðalpersóna Harðar sögu, sé ávallt í forgrunni og upplifun þeirra af mannvígum og hefndum þeirra sem eldri eru. Aðrir leikarar, söngvarar og dansarar standa sig með prýði og ekki var að sjá að flestir þeirra væru að stíga sín allra fyrstu skref á leiksviði. Það þarf vafalaust að beita ýmsum brögðum til að koma um 50 leikurum á svið i einni senu eins og stundum gerðist en það var vel leyst af leikstjóra og hans aðstoðarfólki.

Raunar er flest sem viðkemur Vítahring afar vel gert og af miklum metnaði. Tónlistin er mjög áberandi í sýningunni og lögin flest mjög grípandi enda eru þeir Einar, Flosi og Gunnar Sturla þar á heimavelli. Leikarar eru skýrmæltir í söng og vel studdir af söngdívum sem voru í essinu sínu. Dansar í verkinu eru vel útfærðir og líflegir en danshöfundur er Sandra Ómarsdóttir sem hefur oft áður unnið með Einari Viðarssyni leikstjóra. Eygló Gunnarsdóttir sér um hönnun búninga og blandar saman ýmsum fatastílum sem kemur virkilega vel út. Þá verður að nefna það að frá fyrri sýningum hefur sviðið verið stækkað og því sjá leikhúsgestir betur yfir sviðið og þá sérstaklega yngri kynslóðin. Það er óhætt að mæla með Vítahring. Hér er á ferðinni skemmtilegur söngleikur með alvarlegum undirtóni og fallegum boðskap og ekki annað hægt en að hrósa þessum fjölmenna hópi fyrir vel unnin störf og bætta menningu. Til lukku!

vaks

Vel gerður Vítahringur í Grundaskóla - Skessuhorn