
Víða slæmt ferðaveður í gærkvöldi
Síðdegis í gær og til miðnættis var gul viðvörun í gildi vegna hvassviðris og ofankomu víða um suðvestanvert landið. Verst var ferðaveðrið á veginum við Hafnarfjall, en klukkan 22 í gærkvöldi var staðvindur þar 23 metrar á sekúndu og sló upp í 43 metra. Fjöldi ökumanna flutningabíla og stærri ökutækja ákvað að bíða af sér veðrið þar til vindhraði lækkaði, m.a. í Borgarnesi og við Laxárbakka. Færð var mjög varhugaverð við Hafnarfjallið í gærkveldi; sterkur hliðarvindur, hálka og krap á veginum.
Áfram má búast við hálku á vegum í ljósi þess að hitastigið er nokkuð neðan við frostmark og veghiti -1,5 gráður. Þá er í veðurspám gert ráð fyrir að lægðir gangi yfir landið hver af annarri næstu daga, en þær eru þó án viðvarana - enn sem komið er að minnsta kosti.