Fréttir
Bæjarkirkja í Borgarfirði. Ljósm. Inga Guðmunda Aradóttir á FB

Tónleikar í Bæjarkirkju næstkomandi sunnudag

Sunnudaginn 8. desember klukkan 16:45 hefjast tónleikar í Bæjarkirkju í Bæjarsveit. Þar kemur fram hljómsveitin Hjónakornin en það er nýstofnuð hljómsveit sem leggur áherslu á létta og innilega nálgun á viðfangsefnum ásamt einlægri og líflegri sviðsframkomu. Hljómsveitina skipa tvenn hjón sem komið hafa fram í sitthvoru lagi en sameinast nú í einni sveit, Bæjarsveit. Halldóra Björk Friðjónsdóttir er ættuð úr Borgarnesi og Jón Svavar Jósefsson er Eyfirðingur. Þau hafa sungið saman um árabil og lifa og hrærast í vindhviðum söngsins í kringum höfuðborgarsvæðið. Þau Anna Þórarinsdóttir, sem ættuð er úr Reykholtsdal, og Hallbjörn V. Fríðhólm Suðurnesjamaður hafa einnig komið fram og sungið og spilað við ýmis tækifæri sem upp koma hverju sinni. Að þessu sinni verða Hjónakornin reyndar aðeins þrjú þar sem Anna kemur ekki fram. Jólaandinn mun svífa yfir gestum á þessum fyrstu tónleikum Hjónakornanna.

Á tónleikunum verður boðið upp á ýmsar útgáfur af jólalögum með nýjum og gömlum útsetningum með fjölbreyttum hljóðfærum og jafnvel slæðast inn lög sem ekki eru jólalög en ljúf engu að síður og renna vel niður með heitu súkkulaði sem einmitt verður í boði fyrir gesti í Bæjarkirkju. Þetta stefnir allt í að verða notaleg stund, slegið verður á létta gítarstrengi og bogi jafnvel dreginn á sög. „Það er virkilega gaman að fá að koma fram í þessari fallegu kirkju og setja tóninn fyrir áframhaldandi músík líf í kirkjunni en fyrirhugaðir eru einmitt fleiri viðburðir enda er kirkjan einstaklega notaleg og upplögð fyrir hverslags mússiseringu.“

Vilja glæða húsið lífi

Í sóknarnefnd Bæjarkirkju sitja þau Jómundur Hjörleifsson, Sandra Björk Bergsdóttir og Þóra Björg Sigurðardóttir. Þau segja að í Borgarfirði séu víða fallegar kirkjur sem ekki eru mikið notaðar. „Ein af þeim er Bæjarkirkja, kyrrlát, falleg og rúmgóð. Kirkjurnar eru ákveðinn miðpunktur í hverri sveit og hafa haft það hlutverk um árabil að þjóna samfélaginu og fólkinu í sveitinni þótt hefðbundið kirkjustarf hafi dvínað og færst til stærri kirkna og samfélaga í kring. Við sem erum í sóknarnefnd Bæjarkirkju höfum áhuga á því að nýta kirkjuna okkar betur til tónleikahalds, samfélagsþjónustu og fræðastarfs; sóknarbörnum, nærsveitunum og öðrum gestum til gleði og næringar. Okkur finnst viðeigandi að hefja slíkt starf í byrjun aðventu þegar myrkrið og skammdegið kallar á að við tendrum ljós hið innra og hlúum að okkur sjálfum og hvert öðru með mildi og hlýju. Við fengum því til liðs við okkur tónlistarfólk sem ætlar að koma til okkar og halda tónleika næsta sunnudag,“ segja þau Jómundur, Sandra Björk og Þóra Björg.

„Við bjóðum upp á heitt súkkulaði og pönnukökur meðan fólk er að tínast inn í rólegheitum. Við biðjum fólk því að hafa tímann með sér og minnum um leið á mikilvægi hins hæga og ljúfa takts í desember.“ Þau bæta því við að þeir sem eru áhugasamir um að nýta kirkjuna er velkomið að hafa samband við sóknarnefndina.

Tónleikar í Bæjarkirkju næstkomandi sunnudag - Skessuhorn