
Þau verða þingmenn okkar næsta kjörtímabil
Landsmenn gengu að kjörborðinu síðastliðinn laugardag og kusu til Alþingis. Fyrirfram var búist við sviptingum í fylgi flokka sem og varð raunin. Vinstri flokkar landsins guldu bókstaflega afhroð og þurrkast af þingi bæði Píratar og fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Sósíalistaflokkurinn náði heldur ekki lágmarki til að fá menn á þing. Hægri Lýðræðisflokkur Arnars Þórs Jónssonar ekki heldur. Þessi niðurstaða þýddi að yfir tíundi hluti atkvæða sem greidd voru á laugardaginn féllu dauð, eða yfir 20 þúsund atkvæði. Segja má að öllum fráfarandi ríkisstjórnarflokkum hafi verið refsað í þessum kosningum. Framsóknarflokkurinn snarminnkar í fylgi og missti samtals átta þingmenn líkt og VG. Sjálfstæðisflokkurinn missti tvö þingsæti frá síðustu kosningum og er nú næststærsti flokkurinn á þingi. Um ákveðinn varnarsigur flokksins er að ræða, sérstaklega í samanburði við hina tvo stjórnarflokkana. Samfylkingin er eftir kosningarnar stærsti flokkur landsins með 20,8% atkvæða á bak við sig. Það skilar flokknum 15 þingsætum. Þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 14 þingmenn og 19,4% atkvæða. Viðreisn bætti verulega við sig fylgi og fékk nú 15,8% og tíu þingmenn. Miðflokkurinn bætti sömuleiðis við sig, fékk nú 12,1% atkvæða sem skilar átta þingmönnum. Flokkur fólksins hlaut 13,8% fylgi sem skilar tíu þingsætum. Loks fékk Framsóknarflokkur 7,8% fylgi og fimm þingmenn sem allir eru af landsbyggðinni.