Fréttir
Á myndinni sjást þær krefjandi aðstæður sem voru á vettvangi. Ljósm. aðsend

Mikill viðbúnaður þegar rúta með ferðafólki valt á Fróðárheiði

Um nónbil á laugardaginn valt hópferðabíll nærri sæluhúsinu á Fróðárheiði á Snæfellsnesi. Glerhálka var á háheiðinni þegar óhappið varð og talsverður vindur. 25 ferðamenn voru í bílnum auk íslensks bílstjóra. Mikill viðbúnaður var vegna slyssins, en tækjabílar og sjúkrabílar komu frá Ólafsvík og Grundarfirði og sjúkrabíll að auki frá Stykkishólmi en hann fór til Ólafsvíkur og tók áhöfn hans þátt í starfi fjöldahjálparstöðvar sem Rauði krossinn opnaði í Ólafsvík. Þyrla Landhelgisgæslunnar mætti einnig og lenti hún við Bjarnarfoss í Staðarsveit.