Fréttir
Frá Stykkishólmi. Ljósm. gj.

Smørrebrød pop-up í Stykkishólmi

Annað árið í röð mun Sjávarborg í Stykkishólmi breytast í Smørreborg og í þetta skiptið verður það fyrstu helgina í desember, nánar tiltekið frá 5. – 8. desember. Markmiðið er göfugt og viðeigandi, að færa danska smurbrauðs jólastemningu til Stykkishólms. Skessuhorn heyrði hljóðið í einum af skipuleggjendum viðburðarins, Sigþóri Steini Ólafssyni. „Ég fæ smurbrauðsáhugann í arf frá föður mínum, sem var matreiðslumeistari og smurbrauðsáhugamaður. Það var svo Steinar Atli Skarphéðinsson sem fékk hugmyndina að því að taka höndum saman og búa til skemmtilega jólahefð á Sjávarborg sem foreldrar hans reka,“ nefnir Sigþór. Hugmyndin var fyrst og fremst að hafa gaman og færa líf í Sjávarborg á aðventunni. „Væntingar um almennan áhuga voru mjög hófstilltar og því kom það skemmtilega á óvart hversu margir voru sólgnir í smurbrauð í Stykkishólmi. En auðvitað hefði það ekkert átt að koma á óvart enda staðurinn með sterka tengingu við danska menningu,“ nefnir Sigþór.

Smørrebrød pop-up í Stykkishólmi - Skessuhorn